Samsung SyncMaster 226BW review


Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Reputation: 0
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

Samsung SyncMaster 226BW review

Pósturaf Yank » Mán 27. Ágú 2007 23:19

Í gegnum árin hefur það einhvern veginn verið þannig hjá mér að þegar kom að því að velja tölvubúnað stóð oft einn hlutur á hakanum, nefnilega hvernig skjá átti að fá sér. Oft var búið að eyða löngum tíma í að velja móðurborð, örgjörva og minni en svo þegar kom að því að velja skjá, þá er eins og... já æ, heyrðu ég tek bara þennan, hann er ágætur er það ekki?. Þetta var mögulega vegna þess að úrvalið var ekki svo mikið, einungis var um CRT skjái að velja hérna í „gamla daga“ og oft var erfitt að sjá mun á gæðum þeirra, þrátt fyrir mikinn verðmun. Eða þá einfaldlega: ég hafði ekki nægjanlegt vit á þessu til þess að sjá muninn.

Þetta hefur nú breyst töluvert með tilkomu LCD skjáa, en þótt sú tækni sé ekki ný af nálinni, er hún enn að slíta barnsskónum. Gæði skjáa frá mismunandi framleiðendum geta verið mjög misjöfn, og það jafnvel þótt þeir séu samkvæmt uppgefnum kostum mjög líkir. Það getur því verið vandasamt verk að velja sér LCD skjá sem hentar fyrir notkun hvers og eins. Það er þó ekki ætlun þessarar greinar að vera A-Ö leiðbeining á vali á LCD skjáum heldur verður Samsung SyncMaster 226BW tekinn til kostanna.

Skipta má LCD skjáum gróflega í þrjá flokka eftir notkun eða þörfum notanda: tala má um almenna skjái til skrifstofustarfa, sérstakir skjáir til professional myndvinnslu, og skjái fyrir hinn almenna notenda sem spilar leiki, vafrar um netið og horfir af og til á kvikmyndir hvort sem það eru HD-DVD, Blu-ray eða bara DVD. Til þessa síðasta flokks telst sá skjár sem fjallað verður um hér, þ.e. Samsung SyncMaster 226BW.

Mynd

Nánar um Samsung

Það er kominn ákveðin hefð fyrir því að fjalla aðeins um framleiðenda en hér verður ekki eytt miklu púðri í slíkt. Ef þú hefur ekki heyrt talað um Samsung áður þá ertu nýlega sloppin úr áratuga einangrun á Hrauninu eða nýkomin af eyðieyju þar sem þú varst strandaglópur. Ef þú hefur nánari áhuga á sögu Samsung eða annarri framleiðslu þessa fyrirtækis þá skaltu endilega skoða http://www.samsung.com

Nánar um Samsung SyncMaster 226BW

LCD skjáir verða alltaf stærri og stærri. 19“ var normið en í dag er það að líklega að færast yfir í 22“ og stefnir enn hærra. Þegar kom að því að skipta út Acer Gamers 19“ skjá varð niðurstaðan að skjárinn yrði að vera a.m.k 22“. Það er töluvert stökk að fara úr 19“ LCD í 22“ þegar kemur að vinnuplássi (skjáfleti). Flestir 22“ eru í skjáupplausninni 1680x1050 eða widescreen (breiðtjald) í hlutföllunum 16:10 á meðan 19“ skjáir eru 1280x1024 í 4:3 hlutföllum. Þótt tölvuskjáir í dag sé widescreen þá eru þeir ekki í sama hlutfalli og venjulegt widescreen sjónvarp en þau eru venjulega 16:9. Þetta þýðir venjulega svartar línur fyrir ofan og neðan ef mynd er í 16:9 formati. Venjulegir spilarar t.d. VLC (video lan player) geta breytt þessum hlutföllum þannig myndin fylli út í skjáinn án þess að stór hluti af myndinni tapist, þótt hann sé í 16:10 formati.

Hversu stór er 22“ skjáflötur

Mynd

Myndin sýnir muninn á stærð skjáflatar á klassískum 19“ LCD skjá í 1280x1024 píxlum vs. 22“ skjáflöt í 1680x1050. 22“ flöturinn rúmar nánast tvö A4 blöð í raunstærð hlið við hlið.

Helstu eiginleikar Samsung SyncMaster 226BW

Mynd

Tekið af http://www.samsung.com/EU

Samsung gefur ekki upp hvaða gerð af panel er í þessum skjá en það má vera ljóst eftir lesninguna hér að ofan að þetta er 6 bita TN panel. Það hlýtur bara að vera vegna þess að skjárinn er með mest 160° áhorfshorn og 2ms GtG viðbragðstíma. Samt sem áður gefur Samsung hann upp fyrir að vera 16,7M lita. En það gæti hann aðeins verið ef hann væri með 8 bita panel. Þetta er ekkert einsdæmi í dag, flestir framleiðendur eru farnir að beita ákveðnum brögðum til þess að ná 16,7M litum út úr 6 bit panelum. Samsung hefur síðan fullkomnað þá tækni með MagicColor.

Eitthvert drama varð til á ákveðinni vefsíðu sem ekki verður nefnd á nafn hér varðandi uppruna panela í þessum Samsung skjáum. Einhverjum sögum fór af því að Samsung hefði ekki annað eftirspurn og því „selt“ framleiðsluna til lakari fyrirtækja. Þeir skjáir áttu að vera eitthvað lakari. En þegar öll kurl voru komin til grafar þá var ómarktækur munur á gæðum þeirra skjáa og þeim framleiddum í verksmiðjum Samsung.

Mynd

Það vantar ekki merkingar og vottanir. Er það ávallt skáti ávallt Samsung kannski???

Samantekið: 2ms svörunartími, 1000:1 í skerpu,3000:1 Dynamic skerpa, 22“ breiðtjalds panel, 1680x1050 upplausn, 16:10 format, píxlaþéttleiki 0,282x0,282 mm, birta 300cd/m2, HDCP tilbúinn, en ef þú hefur hugsað þér að horfa á HD-DVD eða Blu-ray í tölvunni þá er þessi stuðningur æskilegur.

Kassi og Fylgihlutir

Mynd

Kassinn er ótrúlega fyrirferðarlítill, og í raun virkaði mun minni heldur en kassinn utan af gamla 19“ Acer skjánum. Þetta tiltekna eintak er framleitt í Slóveníu skv. merkingum á kassanum.

Mynd

Myndin sýnir stærðarmun á Acer Gamers Edition 19“ vs Samsung SyncMaster 226BW

Mynd

Fylgihlutir eru DVI snúra, VGA (15 pin D-sub) snúra, rafmagnssnúra, CD með manual og reklum, og quick guide. Síðast en ekki síst sérstakur klútur til þess að þurrka ryk og fingraför af skjánum.

Uppsetning og stillingar

Mynd

Mjög auðvelt og fljótlegt er að setja upp skjáinn. Einungis þarf að festa fótinn á, en það er gert með þar til þess gerðri skrúfu. Enginn verkfæri þarf til uppsetningar. Staðsetning takka til stillinga er til fyrirmyndar en þeir eru staðsettir neðan á skjánum í stað hefðbundin staðs framan á skjánum. Þessi staðsetning getur valdið vandræðum og ekki alltaf sem hitt er á réttan takka í fyrstu tilraun, sér í lagi þegar mjög björt mynd er á skjánum og því erfitt að lesa á merkingarnar. En þessi staðsetning venst fljótt og aðalega er verið að fikta í einum takka, nefnilega þeim sem stillir MagicBright.

Hægt er að stilla allt mögulegt í skjánum eins og venja er m.a. skerpu, birtu og liti. Einnig kemur skjárinn með innbyggðum stillingum sem gefa möguleika á vali á MagicColor sem hægt er að stilla á off, demo, full eða intelligent en Intelligent stillir þá liti sjálfkrafa eftir því í hvað er verið að nota skjáinn hverju sinni.

MagicBright gefur möguleik á að stilla með einni snertingu á Custum, Text, Internet, Game, Sport, Movie, og Dynamic Contrast. En allt eru þetta fyrirfram ákveðnar stillingar sem henta eiga hverju hlutverki fyrir sig. T.d. þegar stillt er á Text þá dofnar skjárinn og verður þægilegri og mildari að horfa á. En það er kostur þegar vinna á með texta skjöl í langan tíma. Þegar stillt er á Game þá lifnar meira yfir litum og skerpa er aukin. Einnig getur hver og einn stillt á sín eigin gildi með og vistað þau sem custom stillingar.

Hægt að stilla hallann á skjánum, bæði fram og aftur. Einungis örlítið fram á við en töluvert aftur á bak. Ekki er hægt að stilla hæð.

Mynd

Mynd

Skjárinn kemur með einu DVI og einu VGA (15 pin D-sub) tengi. Nota verður annað hvort tengið fyrir eina vél. Ekki er hægt að tengja tvær vélar við sama skjá. Power takkinn lýsir daufu bláu ljósi, ekki laser blátt ljós eins og sjá má frá sumum framleiðendum. Fjarlægja verður hlíf aftan á skjánum til þess að tengja. Hlífin gegnir því hlutverki að fela kapla á snyrtilegan hátt.

Fleiri myndir

Mynd
Mynd

Test Setup

CPU: Intel Core 2 E6600 2.4Ghz@2,89Ghz (320FSBx9)
Video drivers: Force Ware 158,22
Móðurborð: MSI 975X Platinum Power up edition
HD: 2 x WD36GB raid 0
Minni: Corsair XMS DDR2 6400, @800MHz, timings 5 5 5 12
Hljóðkort: Creative Audigy
Skjákort MSI 8800GTS O.C. Edition
Stýrikerfi: Win XP P2
Skjár: Samsung SyncMaster 226BW, Acer Gamers 19” ,Sony Multiscan G420 CRT

Próf

Inputlag

Er sá tími sem líður frá því að skjánum bárust boð um að birta mynd þangað til skjárinn birtir hana.

Ekkert mælanlegt input lag fannst við mælingar, né varð vart við það við keyrslu á 3Dmark03, þótt fylgst væri náið með báðum skjáum. Tengdur var Sony CRT skjár við skjákortið ásamt Samsung SyncMaster 226BW og stillt á klónun. Þ.e. sama mynd var á Samsung og Sony skjánum á hverjum tíma.

Keyrð var skeiðklukka sem sýndi tímann allt niður í einn þúsundasta úr sek og teknar 20 myndir af skjánum. Enginn mynd sýndi mismunandi tíma milli skjánna. Gert er ráð fyrir að Sony analog skjárinn hafi ekkert inputlag.

Mynd

Black light bleed er leiðinda fyrirbæri, sem hefur veirð viðloðandi skjái með lágan viðbragðtíma. Það lýsir sér sem hvítt ljós sem sést best í myrkvuðu herbergi þegar skjáir birtir svarta skjámynd. Þetta ljós sést oft sem glampi við jaðra skjásins, svona eins og ljós sé að leka út við endanna. Þetta getur verið mjög hvimleitt þegar horft er á bíómyndir sem eru með atriðum sem gerast í myrkvuðu umhverfi. Dæmi um svona mynd væri t.d. DOOM og ekki síst DOOM3 leikurinn. Myndin sýnir þó ekki sé hún góð að þetta fyrirbæri er til staðar hjá Samsung SyncMaster 226BW, en í mjög litlu magni. Örlítið ber á því við jaðarinn að ofan. Þetta er þó það lítið að ekki verður mikið var við þetta í leikjaspilun eða við áhorf kvikmynda.

Samantekt

Samsung SyncMaster 226BW er glæsilegur LCD skjár. Með þessum skjá er auðvelt að mæla. Hann sameinar fallegt útlit og notagildi. Hann hentar mjög vel til leikjaspilunar, og áhorfs á kvikmyndum hvort sem þær eru af HD (hágæða) formati eða ekki.

Samsung SyncMaster er góð málamiðlun fyrir venjulegan notanda sem vill njóta þessa að vinna á því plássi sem 22“ skjár veitir, spila leiki í einstökum litagæðum, og án þess að eiga á hættu að ghosting komi til með að eyðileggja ánægjuna, enda skartar skjárinn 2ms GTG viðbragðstíma og 1000:1 í skerpu og 3000:1 í Dynamic skerpu. Þessu nær Samsung út úr TN panel með tækni sem hefur fleytt Samsung á stall meðal bestu framleiðendum skjáa fyrir tölvunotendur.

Samsung SyncMaster 226BW er ekki hin fullkomni skjár. Ef þú ert hefur starf af því að vinna með ljósmyndir eða mikið í grafík þá er það ekki víst að þessi skjár sé fyrir þig, þú getur fundið betri skjá í slíka hluti en þú verður að borga mun meira.

Það er þó í raun ekki hægt að finna margt að Samsung SyncMaster 226BW. Fátæklegir valmöguleikar þegar kemur að stillingum á fæti þ.e. halla og hæð, og það að ekki sé hægt að tengja tvær vélar við sama skjá, enginn USB tengi, ekki hátalarar, dregur úr notagildi. En fyrir notanda með slíka hluti í huga er Samsung SyncMaster 226BW ekki hannaður. Einnig mætti verðlag vera lægra en hann má vera ansi mikið betri en aðrir 22“ skjáir sem auglýstir hafa verið á innan við 30 þúsund hér á landi.

Umræða um þetta hér
http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?t=15330

Editor RISI
Copyright Yank 2007