ICY BOX IB-MP3010-B Review


Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Reputation: 0
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

ICY BOX IB-MP3010-B Review

Pósturaf Yank » Þri 07. Okt 2008 17:30

Þeir eru að verða nokkuð margir margmiðlunarspilararnir sem ég hef prófað. Um fæsta þeirra hef ég skrifað greinar enda standa þeir oft ekki undir væntingum. Raidsonic hafa verið einstaklega elskulegir að útvega spilara til prófanna. Sá margmiðlunarspilari sem hér verður fjallað um hefur þá sérstöðu að á hann er hægt að taka upp myndefni beint úr sjónvarpi (myndlyklinum), af DVD spilara, vídeó eða bara í einföldu máli öllum græjum með tv-out möguleika. Mér þótti því þessi spilari strax nokkuð forvitnilegur, enda eru þarna komnir í einni lítilli græju margir kostir.

Þegar kemur að vali á margmiðlunarflakkara er margt sem þarf að hafa í huga. Mikilvægt að gera sér grein fyrir hverjar þarfir og væntingar notanda eru. Margmiðlunarflakkarinn verður að styðja öll algengustu form vídeó-, mynd- og hljóðskráa. Það er fátt leiðinlegra en að sitja upp með skrá sem spilast ekki. Þó slíkt komi upp þýðir það ekki endilega að við það verði ekki ráðið, því algengt er að forrit fylgi spilurum til þess að breyta skrám á form sem þeir styðja. En hver nennir svo sem að standa í því? Kostur er að margmiðlunarspilarinn styðji HD form vídeóskráa, sér í lagi ef nýta á til fulls gæði þess dýra High definition LCD eða Plasma sjónvarps sem nýlega hefur verið fjárfest í. Spilarar sem ráða við öll HD skráarform eru af skornum skammti, oft hafa þeir einungis þann eiginleika að geta spilað eitt form af HD skrám en skrár sem teljast til HD forma eru af nokkrum gerðum. Margmiðlunarspilarar sem styðja HD form vídeóskráa eru enn frekar dýrir.

Mynd
Mynd fengin af http://www.raidsonic.de

Margir margmiðlunarspilarar hafa innbyggð netkort og bjóða þannig upp á möguleikann að spila efni yfir lan, hvort sem það er þráðlaust eða harðlínutengt. Þetta eykur á notagildi þeirra og gerir mögulegt að nota suma þeirra þá einnig sem þægilegt NAS (network storage system), fyrir hinar ýmsu skrár sem eðlilega safnast upp á heimilinu og gott er að geta geymt á vísum stað. Slíkar skrár geta t.d. verð sumarfrísmyndir osfv.

Aðeins um RaidSonic

RaidSonic er þýskt fyrirtæki sem stofnað var 1999. RaidSonic hefur í gegnum árin skapað sér gott orð fyrir hönnun og framleiðslu á harðdiskahýsingum hvort sem er fyrir 3,5" eða 2,5" harðdiska. Nánari upplýsingar um framleiðslu og sögu fyrirtækisins er hægt að nálgast á http://www.raidsonic.de

Helstu eiginleikar ICY BOX IB-MP3010S-B

Uppgefnir eiginleikar frá framleiðanda:
Multimedia-Player with recording function
- HDD support: 3.5" SATA up to 750GB/s
- Recording input: Audio Stereo and composite Video
- Recordet format: MPEG2 bis zu 720x576&25fps (PAL),
720x480@30fps (NTSC)
- 5 adjustable recording quality level: HQ/SP/LP/EP/SLP
- Time shift function with Video in
- File System: FAT32, NTFS (read only)
- Integrated card reader
- Cardreader formats: (SD/MMC/MS/MS Pro)
- Network streaming by LAN 10/100 Mbps, RJ-45 (Samba share)
- Supports subtitle formats like SRT, SSA, SMI
- Audio Output: Stereo L/R, SPDIF (coaxial/optical)
- Audio: MP3: bis 320Kbps, WMA: bis 192Kbps, OGG
- Image: JPG/JPEG/BMP
- Video Output: Composite, Component (up to 720P/1080i)
- MPEG-1, MPEG-2, MPEG-4: AVI, MPG, VOB, IFO,
DAT, MPEG2 TS, Xvid
- TV system: NTSC/PAL/SECAM
- USB 2.0 up to 480 Mbit/s
- Supports Windows 98/XP/Vista, MAC OS

Nánari upplýsingar frá framleiðenda
http://www.raidsonic.de/en/pages/produc ... ectID=5356

Eiginleikar og prófanir

Viftukæld harðdiskahýsing úr áli fyrir SATA 3,5" harðdiska. Styður FAT32 og NTFS skráarkerfi. Getur þó einungis lesið NTFS en ekki skrifað. Margmiðlunarspilari með upptökumöguleika með Steríó hljóði og mynd í gegnum Composite, eða Component tengi. Time shift möguleiki á upptöku. Innbyggt Lan 10/100 Mbps. Innbyggður kortalesari sem les SD/MMC/MS/MS Pro kort.
Styður kvikmyndaskráarform: MPEG-1, MPEG-2, MPEG-4: AVI, MPG, VOB, IFO, DAT, MPEG2 TS, Xvid. Hljóðskráarform: MP3, WMA, OGG. Myndskráarform: JPEG/JPG/BMP. Hljóð út: Stereo L/R, SPDIF (coaxial/optical). Vídeó út: Composite, Component (up to 720P/1080i).

ICY BOX IB-MP3010S-B spilar algengustu kvikmyndarskráarform, en ekki nein HD (hágæða) skráarform. Stuðningur við ljósmyndaskráaform er fullnægjandi, og er stuðningur við það form sem algengast er að stafrænar myndavélar visti myndir sínar á.

Hægt er að formata harðdiskinn í gegnum menu möguleika spilarans og skipta í tvo hluta, annars vegar FAT32 og hins vegar NTFS. Hægt er að ráð hversu stór hver hluti verður. Stuðningur við skráakerfin er þannig að spilarinn les bæði en skrifar einungis á FAT32 hluta disksins í gegnum menu. Hægt er að vista skrár á báða hluta disksins í gegnum USB tengingu við tölvu.

ICY BOX IB-MP3010S-B bíður einnig upp á að geta afritað skrár yfir lanið í gegnum menu en getur þá einungis skrifað þær á FAT32 hlutann. FAT32 er þeim takmörkunum háð, að það er ekki hægt að vista á því skráarformi stærri skrár en 4GB. Þetta er þó ekkert stórvandamál því með tengingu við tölvu um USB tengið er hægt að vista skrár af hvaða stærð sem er á NTFS hlutann á disknum ef manni sýnist svo.

Tvö USB tengi og minniskorta lesari gera mögulegt að taka afrit af gögnum hvort sem þau eru af harðdiskahýsingu, USB lykli eða minniskorti með því að þrýsta á einn hnapp. Raidsonic eru einnig að bjóða uppá þráðlausan lan USB pung sem ég veit ekki hvort verður fáanlegur hér á landi.

Öll stjórnun á ICY BOX IB-MP3010S-B fer fram með fjarstýringunni, það er því eins gott að týna henni ekki og hafa vara rafhlöðu á næsta leyti, enda er spilarinn gagnslaus án hennar. Rafhlöðurnar eru klassískar AA 1.5V. Fjarstýringin er mikil framför frá fjarstýringum sem hafa fylgt Raidsonic margmiðlunarspilurum fram til þessa. Hún er mun þægilegri og vandaðri. Það má reyndar gagnrýna staðsetningu sumra takka t.d. RETURN takkans sem er kjánalega staðsettur undir VOL+ takkanum. Að ýta á hann fyrir mistök í miðri mynd er hvimleitt, því þá þarf að setja myndina af stað aftur frá byrjun eða nota GOTO ef maður er svo heppin að vita nákvæmlega hvert maður var kominn. RETURN takkinn væri betur settur fyrir ofan takkann 3. Það verður þó að viðurkennast að takkastaðsetning vandist fljótt og einungis einu sinni tókst mér í gáleysi að gera þetta.

Mynd

Kassi og fylgihlutir

Bleiki kassinn frá Raidsonic er löngu orðinn frægur á mínu heimili, enda fór konan fögrum orðum um kassann utan af ICY BOX 302 og kallaði hann bleika tösku. Raidsonic hefur breytt litasamsetningunni og er kassinn orðin fjólublár og svartur. Kassinn er með handfangi sem gerir mögulegt að nýta hann áfram til þess að flytja margmiðlunarspilarann á milli staða.

Mynd

Ég ætla að prufa nýja framsetningu á þessu og læt myndband tala sínu máli

http://www.youtube.com/watch?v=0gJwxLM_brE

Samsetning

Það þarf enga sérstaka sérfræði þekkingu til þess að koma harðdisk fyrir í ICY BOX IB-MP3010. Ef þú hefur séð stjörnuskrúfjárn þá ættirðu að geta klórað þig í gegnum samsetninguna, enda fylgja mjög góðar myndleiðbeiningar með. Í grundvallar atriðum fer þetta þannig fram.

• Skrúfa bakplötuna af. Frá verksmiðju kemur lokið fest með einungis tveimur skrúfum, en það sparar tíma.
• Losa viftutengið frá og fjarlægja lokið
• Ýta öllu fram á við út úr álhýsingunni
• Festa harðdiskinn í með fjórum skrúfum
• Ýta öllu saman aftur
• Tengja viftutengið á bakplötunni
• Skrúfa allar 8 skrúfurnar á sinn stað

Samsetning gekk mjög vel fyrir utan að skrúfgangur tveggja innri skrúfanna pössuðu ekki við götin á bakplötunni, þrátt fyrir að götin pössuðu fullkomlega við skrúfurnar 4 til endanna. Sjá mynd hér að neðan. Þetta var auðveldlega leiðrétt með því að þrýsta létt á A/V IN tengin þegar skrúfurnar voru skrúfaðar í. Skrúfurnar eru af misjafnri lengd, en auðvelt er að sjá hvert hver á að fara út frá leiðbeiningunum. Ég myndi samt mæla með því fyrir tengdó að kaupa spilara með ísettum harðdisk.

Mynd

Mynd

Mynd

Mynd

Harðdiskurinn er skrúfaður fastur með skrúfu í gegnum gúmmiþéttingu sem minnkar allan víbring og dregur úr hljóðmyndun.

Eftir að samsetningu er lokið er harðdiskurinn formataður í gegnum menu spilarans. Hægt er að formata í tvo parta annars vegar FAT32, en á þann hluta vistast upptaka margmiðlunarspilarans og hins vegar NTFS hluta sem einungis er lesanlegur af spilaranum. Hægt er að ráða hve stór NTFS hluturinn er og honum er hægt að sleppa alveg og formata allan harðdiskinn af FAT32 formi.

Dagleg notkun

Menu ICY BOX IB-MP3010 er nokkuð einfalt í notkun og ætti að vera á færi allra að stafa sig í gegn um það. Leiðbeiningabæklingurinn sem fylgir með er einnig prýðilega uppsettur og skilmerkilegur, en hann er á ensku og þýsku.

Þegar farið er yfir vídeóskrá í menu vill spilarinn alltaf byrja á því að spila myndbrot úr skránni í kassa sem er til hliðar hægra megin á skjánum. Einnig eru birtar upplýsingar um stærð og gerð skráar, og hversu lengi hún sé í spilun. Frekar hvimleitt svona þegar maður er að skoða vídeóskrár yfir lantengingu því það hægir full mikið á vafri um menu ef margar vídeóskrár eru í sömu möppu. Hef ekki fundið leið til þess að slökkva á þessum möguleika eins og hægt var í ICY BOX MP302 margmiðlunarspilaranum. Hjá þessu er hægt að komast með því að geyma hverja vídeóskrá í sér möppu, en þá er þetta ekki vandamál.

ICY BOX IB-MP3010 spilar þær skráartegundir sem honum er ætlað og hann lætur vita ef skráin er af formi sem hann ræður ekki við með því að birta í glugga slíkar upplýsingar (Format not supported).

Það sem skilur ICY BOX IB-MP3010 frá mörgum öðrum margmiðlunarspilurum er að hann getur virkað sem upptökutæki. Sem upptökutæki úr sjónvarpi hefur ICY BOX IB-MP3010 reynst vel með þeim tækjum sem hægt er að tengja beint við hann. Tenging við flesta DVD spilara eða tæki sem hafa composite tengi út er auðveld. Digital Ísland myndlykilinn hefur slíka tengingu. Og við endurspilun á upptöku eru myndgæði þau sömu og horft hafi verið á sjónvarpið. ICY BOX IB-MP3010 virkar ekki beint með myndlykli Símans enda skv. upplýsingum frá Símanum er ekki hægt að taka upp úr sjónvarpi í gegnum þá ADSL myndlykil símans því merkið er ruglað út úr honum fyrir allar rásir nema Rás 1 , en mér tókst ekki að fá scart út úr honum til að virka með ICY BOX IB-MP3010.

Hægt er að velja í hversu góðum gæðum upptakan er vistuð, hversu lengi er hægt að taka upp fer eðlilega eftir því hvaða gæði eru valin og stærðar harðdisks. Myndin hér að neðan sýnir mismunandi gæða möguleika og hversu lengi er hægt að taka upp á 202GB FAT32 formataðan disk. Í bestu gæðum er hægt að taka upp í 50 klukkustundir en lengst í 289 klukkustundir ef stillt er á að vista myndina í lökustu gæðum. Hægt er að velja hvaða dag og klukkan hvað á að hefja upptöku. Einnig er hægt að skipuleggja hvort taka eigi upp alltaf á sama tíma hvers dags alla daga vikunnar eða bara á ákveðnu tímabili t.d. mánudegi til föstudags. Þannig er t.d. hægt að skipuleggja að taka upp fréttirnar á hverjum degi, eða taka upp ákveðinn þátt sem er sýndur vikulega.

Mynd

Hægt er því að skipuleggja margar upptökur fram í tímann svo lengi sem pláss er á harðdiskunum. Ef verið er að horfa á spilarann á þeim tíma sem upptaka á að fara fram birtist gluggi sem gefur möguleika á því að hætta við upptökuna eða staðfesta að hún eigi að fara fram. Inn í möguleikan þar sem hægt er að tímasetja upptökur sem sést á myndinni hér að ofan er farið með því að þrýsta á TIMER takkann á fjarstýringunni. Stjórnun á þessum tímasetningar hluta var stundum ekki alveg að gera sig og var eins og spilarinn væri aðeins að vinna á móti manni, en með smá þolinmæði náði ég tökum á þessu. Það sem aðallega var að í þessum hluta var að svörun við skipunum fjarstýringarnar gat tekið aðeins lengri tíma en maður átti að venjast annarsstaðar í menu.

ICY BOX IB-MP3010 er með Component út (out) (YPbPr) tengjum sem gefa skýrari og betri mynd en composite ef spilarinn er tengdur þannig við sjónvarpið. Sumir vilja halda því fram að Component gefi jafngóð myndgæði og HDMI.

Mynd

Lantengingin var mjög auðveld og nægjanlegt að tengja í samband við lansnúru og velja auto möguleikann í menu. Hef ekki fundið þráðlausan USB netbúnað sem virkar, en hægt verður bráðlega að fá frá Raidsonic sama spilara með HDMI tengi og þráðlausum netbúnaði. Í menu MP3010 er gert ráð fyrir þráðlausri tengingu. Prufaði þó einungis 2 tegundir af USB þráðlausum USB kubbum.

ICY BOX IB-MP3010 virkar sem NAS (Network Storage) en þá er hægt að afrita skrár yfir á FAT32 skráarsvæði harðdisksins. Ekki stórvandamál en takmarkar það að skrár geta ekki verið stærri en 4GB. Hægt er að sleppa NTFS hlutanum alveg ef manni sýnist svo.

Myndbandið sýnir helstu möguleika menu ICY BOX IB-MP3010-B

http://www.youtube.com/watch?v=QqpqJsff0g0

Samantekt

ICY BOX IB-MP3010 virkar á mig sem vandaður og góður margmiðlunarspilari. Hann bíður uppá möguleika sem maður hefur ekki áður vanist með slík tæki, þetta er ekki bara margmiðlunarspilari heldur einnig upptökutæki og NAS (network storage).

Þann tíma sem ég hef notað ICY BOX IB-MP3010 hef ég lítið saknað rándýru HTPC (Home theater PC) vélarinnar í stofunni, það hefur verið slökkt á henni. Mér hefur liðið ágætlega með það, vitandi að ég er að spara helling af rafmagni. Ég er ekki að segja að MP3010 sé HTPC vél, hann stenst ekki samanburð við slíka græju, en hann kemst nokkuð langt á samanburðinum. ICY BOX IB-MP3010 fer m.a. halloka í samanburðinum við HTPC vél þegar kemur að eftirfarandi hlutum: Ekki er hægt að vera með upptöku í gangi og horfa á eitthvað annað efni á meðan. Ekki er hægt gera neitt nema bíða á meðan afritun skráa fer fram í gegnum menu. Ekki er hægt að afrita skrár af eða á NTFS skráarsvæðið í gegnum menu. Nú er eflaust einhverjum misboðið með öll þessi "ekki" sem nefnd eru,en þetta er ekki sanngjarn samanburður. Það að láta sér detta í hug að geta gert þennan samanburð, er ekkert annað en hrós fyrir ICY BOX IB-MP3010.

Mynd

Við hvaða tæki er hægt að bera ICY BOX IB-MP3010 við? Vídeótæki?, DVD upptökutæki?, DVD upptökutæki með harðdisk? ICY BOX IB-MP3010 er mun fjölbreyttari græja en slík tæki, enda er hann margmiðlunarspilari, upptökutæki plús það að virka sem NAS.

ICY BOX IB-MP3010 hefur aldrei frosið í notkun hjá mér, en það vandamál hefur plagað suma mun dýrari spilara, sem ég hef prufaði nýverið. En algengt hefur verið að þeir frjósi þegar reynt er að spila skráarform sem þeir ráða ekki við.

ICY-BOX IB-MP3010 virkar mjög vel með Digital Ísland myndlyklinum, en ekki með ADSL myndlykli símans. Skv. Upplýsingum frá Símanum á ekki að vera hægt að taka upp efni í gegnum myndlykil þeirra, það hefur því lítið með ICY BOX IB-MP3010 að gera.

ICY BOX IB-MP3010 hefur fram að þessu virkað jákvætt á mig. Ef þú ert að leita að margmiðlunarspilara sem spilar flest annað en HD skrár og getur tekið upp vídeó úr tækjum sem styðja composite út og að auki virkað sem NAS, þá er ICY BOX IB-MP3010 græja sem hægt er að mæla með. Enda ódýrt tæki m.v. möguleikanna sem það bíður uppá.

copyright Yank 2008
Editor RISI