Jetway Radeon HD 3870 X2 Review


Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Reputation: 0
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

Jetway Radeon HD 3870 X2 Review

Pósturaf Yank » Fim 28. Feb 2008 01:24

Konungur aflsins fallinn?

Síðastliðna 16 mánuði hefur Nvidia haft betur í samkeppninni við ATI og hefur verið sá framleiðandi sem hefur getað boðið upp á öflugasta skjákortið. Allt frá því að Nvidia 8800GTX kom á markað (8.nóv.2006), og síðar Nvidia 8800Ultra hafa þau skjákort verið konungar aflsins, það hefur verið svo í óvenjulangan tíma. Nvidia 8800GTX markaði einnig tímamót vegna þess að það var fyrsta skjákortið sem kom á markað með stuðningi við DirectX 10 grafíkstaðalinn.

Nvidia hefur þó ekki alltaf haft betur og fram að útkomu Nvidia 8800GTX, hafði ATI haft yfirhöndina í nokkurn tíma, síðast með skjákortinu ATI Radeon X1950XTX. ATI tókst betur að yfirfæra tækni sína úr DirectX 8 grafíkstaðlinum í DirectX 9 með ATI Radeon 9700 heldur en Nvidia. Það áttu því margir von á því að sagan myndi endurtaka sig þegar yfirfærslan úr DirectX 9 í DirectX 10 myndi ganga í gegn, ekki síst fyrir þær sakir að ATI hefur átt í mun nánara samstarfi við Microsoft vegna XBOX 360 leikjatölvunar frá Microsoft sem búinn er grafískum kjarna frá ATI.

Svar ATI við drottnun Nvidia 8800GTX var í formi ATI Radeon HD 2900 XT, en það kom ekki á markað fyrr en 14. Maí 2007. Þetta skjákort var ekki val margra kaupenda hér á landi frekar en annarsstaðar. Afl Radeon HD 2900 XT http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?t=15064 var ekki á pari við Nvidia 8800 GTX, en það ásamt fleiri vanköntum á HD 2900 XT, gerir erfitt að líta á það útspila frá ATI sem annað en mislukkað. Það hafa því margir, jafnvel hörðustu ATI menn, snúið baki við skjákortum frá ATI. Þar með talin höfundur þessarar greinar, en hann hefur ekki átt skjákort frá ATI síðan, ATI Radeon X800 XT PE (2004-2005) var og hét.

Það hefur margt gerst á þessum tíma hjá ATI, en þar er helst að nefna kaup AMD á fyrirtækinu. AMD örgjörvar ekki síður en ATI skjákortin, hafa farið halloka í samkeppni við Intel, allt frá því að Core 2 Duo örgjörvarnir komu á markað. AMD/ATI hefur því síðstliðið ár farið halloka í samkeppni við Intel og Nvidia, og það hefur tekið sinn toll. Sumir viðskiptatengdir fjölmiðlar hafa spáð fyrir um að endalok AMD séu á næsta leiti, enda fyrirtækið kjörið til yfirtöku fjársterkra aðila, sem síðan myndu selja það í pörtum fyrir hagnað.

Þrátt fyrir allar hrakspár heldur ATI sínu striki og er áfram að setja á markað góð skjákort, en það er nauðsynlegt fyrir samkeppni í þessum geira, sem er öllum í hag. Það gleymist oft í umræðunni að mestmegnis af tekjum þessara fyrirtækja er lítið háður sölu skjákorta í öflugasta flokki, en mun meira háð sölu miðlungsöflugra skjákorta.

Það verður ekki efni þessarar greinar að fjalla um miðlungsöflug skjákort heldur verður Jetway Radeon HD 3870 X2 tekið til kostanna. Þetta skjákort markar tímamót í samkeppni Nvidia og ATI því loksins eftir 16 mánuði lítur út fyrir að konungi aflsins Nvidia 8800GTX hafi verið steypt að stóli, eða hvað?

Mynd

Það Jetway Radeon HD 3870 X2 skjákort sem var prófað hér var lagt til af http://www.tolvuvirkni.is og fá þeir þakkir fyrir.

Nánar um Jetway

Jetway Info. Co., LTD var stofnað í Taipei, Taiwan árið 1986. Fyrirtækið hefur frá upphafi einbeitt sér að framleiðslu móðurborða. Framleiðslan hefur með árunum orðið fjölbreyttari og í dag samanstendur hún m.a. af LCD skjáum, móðurborðum, SFF Barebone vélum, og skjákortum. Nánar um sögu og vöruúrval Jetway má finna á http:// http://www.jetway.com.tw

Kassi og fylgihlutir

Jetway heldur uppteknum hætti þegar kemur að kassa og fylgihlutum, hér ræður einfaldleikinn ríkjum. Allir nauðsynlegir hlutir fylgja með og ekkert óþarfa prjál eða leikir fylgja með.

Mynd
Mynd

Fylgihlutir eru:
• Leiðbeininga bæklingur
• CD með reklum
• Crossfire tengi
• DVI í VGA x2
• Molinex í 6 pin PCI-E rafmagnstengi x2
• S-vhs tengi
• DVI í HDMI tengi

Helstu eiginleikar HD 3870 X2

ATI HD 3870 X2 var sett á markað 28. Janúar 2008. Þetta er ansi forvitnilegt skjákort sem markar tímamót í sögu ATI, því ef eitthvað skjákort á möguleika að fella Nvidia 8800GTX af stalli þá ætti HD 3870 X2 að geta það. ATI Radeon HD 3870 X2 er búið tveimur R680 kjörnum, þessir kjarnar eru náskyldir R600 kjarna Radeon HD 2900 XT, en framleiðslan hefur verið minnkuð niður í 55nm framleiðsluaðferð á sílikoni úr 80nm (R600). G92 kjarni 8800GTS 512MB sem ég hef fjallað um áður http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?t=16438 er framleiddur með 65nm tækni og er náskyldur G80 kjarnanum, þannig það sem hefur verið að gerast síðustu mánuði á skjákortsmarkaðnum eru ekki „stórkostlegar framfarir“ í hönnun á grafískum kjörnum, heldur eru ATI og Nvidia að yfirfæra framleiðsluaðferðir sínar á minni sílikonflögur. Kosturinn við þetta er betri nýting í framleiðslu á hráefni og þ.a.l. ódýrari framleiðsla. Að auki gefur slík yfirfærsla almennt örlítið meira afl og minni orkuþörf og hitamyndun. Þetta næst m.a. vegna þess að rafboð þurfa að fara styttir leiðir í minni kjarna en stærri. Það er ekki í fyrsta skipti sem þetta er gert enda orðin venja bæði í framleiðslu á grafískum kjörnum, og venjulegum örgjörva kjörnum.

Mynd

Radeon HD 3870 X2 er búið: 1024MB (1800MHz) af GDDR3 minni, tveimur R680 kjörnum (320x2 =640 stream processors) sem keyra á 825MHz, 512 bit minnisstýringu, ATI PowerPlay sem minnkar orkunotkun og hitamyndun, ekki ósvipa og Cool'n'Quiet hjá AMD örgjörva, þ.e. dregið er úr spennu og klukkutíðni kjarna þegar ekki þarf á fullu afli að halda. Tenging við móðurborð er um PCI-Express x16 2.0

Radeon HD 3870 X2 er fyrsta skjákortið á markað sem nær floating point reiknigetu umfram 1 TFLOPS (1.06 TFLOPS) og kemur á einu skjáborði.

Hvað er skjáborð PCB? (printed circuit board):
Er platan sem allir hlutar skjákortsins eru settir á og tengingar á milli þeirra eða rafrásir liggja í. Mætti kalla skjáborð eða rafrásarplötu (Ísl-þýðing Alli_ofur), ekki ósvipað og móðurborð.

Radeon HD 3870 X2 er framleitt á einu 12 laga skjáborði en venjulegt HD 3870 á 8 laga skjáborð. Eftir því sem fleiri lög eru á skjáborði því auðveldara er að leiða rafrásir á milli mismunandi hluta skjákortsins. ATI menn er ansi stoltir af þessari hönnun og m.v. önnur skjákort sem skartað hafa tveimur kjörnum hingað til hafa þeir fulla ástæðu til þess, enda hefur tíðkast að notast við tvö skjáborð. Þessi hönnun gerir útfærslu á kælingu auðveldari og hefðbundnari en ella. Enda er hönnun kælingar til fyrirmyndar og ótrúlega lítið fer fyrir þessu skjákorti m.v að það sé búið tveimur kjörnum. Það í raun lítur ekki ósvipað út og er jafn langt og jafn þykkt og Nvidia 8800GTX.

ATI Radeon HD 3870 X2 keyrir sína tvo R680 kjarna á 825MHz tíðni en venjulegt HD 3870 skjákort keyrir sinn eina kjarna á 775MHz. Þeir sem muna eftir síðasta tví-kjarna skjákorti sem Nvidia sendi frá sér fyrir einhverjum árum sem nefnt var Nvidia 7950 GX2. Það skjákort keyrði tvo kjarna sína og minnið á lægri klukkutíðni en venjulegt 7950 GT, hvað þá 7900 GTX. ATI er því klárlega að reyna að kreista eins mikið afl út úr þessari tví-kjarna lausn sinni og þeir mögulega geta.

Ef eitthvað er að marka myndir sem lekið hafa af komandi Nvidia 9800GX2 skjákortinu þá verður það skjákort sett saman úr tveimur skjáborðs plötum á svipaðan hátt og Nvidia 7950GX2 var. Væntanlega verður að finna tvo G92 kjarna á 9800GX2 sem framleiddir eru með 65nm tækni, en það lítur út fyrir að það takmarki Nvidia í því að framleiða 9800GX2 á eitt PCB, þeir mögulega komast bara ekki fyrir. Það er þó rétt að fara varlega í samlíkingu við skjákort sem ekki er komið á markað, slíkt telst varla sanngjarnt.

ATI lofar CrossfireX stuðningi í komandi reklum, en það gerir kleypt að keyra tvö HD 3870 X2 saman á móðurborði sem styður crossfire, og notast þannig við 4x R680 kjarna og 2x1024MB af minni.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að keyra eitt ATI Radeon HD 3870 X2 á móðurborði frá Nvidia hvort sem það styður SLI eður ei.

ATI Radeon HD 3870 X2 notar sömu tækni og áður hefur mátt finna í skjákortum frá ATI með fleiri en einn kjarna. Kjarnarnir eiga samskipti sín á milli fyrir tilstilli PCI-E skiptis sem nærir hvorn kjarna með allt að x16 PCI-E bandvídd. ATI Radeon HD 3870 X2 er því ekkert annað en hugbúnaðar útfærsla á Crossfire tækninni sem hefur áður gert kleypt að notast við tvö skjákort frá ATI með þar til gerðum móðurborðum.

ATI Radeon HD 3870 X2 kemur einungis með tengi fyrir eina Crossfire brú í byrjun, sem gefur þann möguleika á að nýta saman 2x HD 3870 X2 í CrossfireX. ATI segir þó að í framtíðinni megi búast við að sá fjöldi aukist, þannig nýta megi allt að 4x HD 3870 X2 skjákort í Crossfire eða í allt 8xR680 kjarna og 8x1024MB af minni. Einnig hefur ATI uppi áform um að út komi útgáfa með GDDR4 minni.

Mynd

Mynd
Mynd

Enginn tilraun var gerð til þess að yfirklukka Jetway Radeon HD 3870 X2 að þessu sinni. Yfir 8-pin rafmagnstenginu var límband sem þarf að fjarlægja til þess að koma 8-pin rafmagnstengi að, en við það verður breyting í bios skjákortsins, sem opnar fyrir Overdrive og yfirklukkunar möguleika í Catalyst reklinum. Annars þarf tvö 6-pin rafmagnstengi til þess að keyra skjákortið. Við yfirklukkun fellur skjákortið úr ábyrgð.

Mynd
Mynd

Jetway Radeon HD 3870 X2 er stórt skjákort það tekur bil tveggja PCI raufa og er jafnlangt og Nvidia 8800GTX voru. Skjákortinn á myndunum hér að að ofan eru SPARKLE 8800GTS 512MB, Jetway Radeon HD 3870 X2, ASUS 8800GTX, Jetway Radeon HD 3750 og Jetway Radeon HD 3780.

Nánari upplýsingar frá framleiðanda

http://game.amd.com/us-en/unlock_radeonhd3870x2.aspx
http://ati.amd.com/products/radeonhd3800/index.html

Test Setup

CPU: Intel Core 2 Q6600 2.4Ghz (266FSBx9)
Aflgjafi: Fortron Epsilon 700W
Video drivers: NVIDIA ForceWare 169,09,169,21 (G92), Catalyst 7.11, og 8.2
Móðurborð: Gigabyte X38-DQ6 lagt til af www.tolvutek.is
HD: 2 x WD36GB raid 0 fyrir stýrikerfi. Leikir settir upp á WD SATA2 320GB
Minni: Corsair XMS DDR2 6400, @800MHz, timings 5 5 5 12
Skjákort: Jetway Radeon HD 3870 X2, Jetway Radeon HD3850, Jetway Radeon HD3870, Sparkle 8800GTS 512MB lögð til af www.tolvuvirkni.is, ASUS 8800GTX lagt til af www.iod.is, Evga 8800GTS 320MB SC, Inno3D 8800GTS 640MB
Stýrikerfi: Vista Ultimate 32bit
Skjár: BenQ FP222WH lagður til af www.tolvuvirkni.is
Annarbúnaður: Logitech G15, G9 lagt til af www.logitech.com, og ICY BOX IB-266 frá www.raidsonic.de

Próf

Þau próf sem notuð voru að þessu sinni eru öll fyrir utan Far Cry og Prey gerð samfara raunverulegri spilun, þar sem fjöldi ramma er mældur með Fraps. Þetta gefur sem raunverulegasta mynd af afli skjákorta, því fjöldi ramma er þá mældur við þær aðstæður sem skjákortin eru hönnuð í, nefnilega leikjaspilun. Einnig er notast við gervipróf eins og 3DMark06. Leikjaprófin eru öll tekin á 30 sekúnda tímabili yfirleitt strax í byrjun leiks. Varast var að hafa mikið um breytur eins og t.d. skotbardaga við óvini en slíkt getur valdið óþægilega miklum breytileika á niðurstöðum, enda er þá t.d. A.I. leikja að taka afl frá kerfinu en ekki einungis grafíkvélin. Þannig var reynt að endurtaka nákvæmlega sömu hreyfingar og framkvæma sömu hluti aftur og aftur, sama hvaða skjákort var prufað. Ef einhverjar niðurstöður þóttu ótrúverðugar var prófið endurtekið til þess að fá staðfestingu. Hvert próf var keyrt fimm sinnum og meðaltal þeirra niðurstaðna tekið. Allir leikir eru uppfærðir með nýjustu fáanlegum plástrum.

Dæmið sem sett er hér um framkvæmd er ekki dæmigert um hvernig þetta var gert en hér er um COD4 30 sekúnda leikjaspilun að ræða. Þetta var endurtekið fimm sinnum og meðaltals fjöldi ramma tekin af þeim skiptum. Þetta er bara langskemmtilegasta dæmið.
http://www.mediafire.com/?03eusr31t9v

3DMark06 http://www.3dmark.com/products/3dmark06/

Gott og þægilegt forrit til þess að meta afl vélbúnaðar í DirectX 9 þrívíddar leikjum. Inniheldur aðskilin skjákorts- og örgjörvapróf. Örgjörva prófið líkir eftir gervigreindar- (A.I.) og eðlisfræðilegumreikningum (physics) en slíkir reikningar krefjast sífellt meira afls af vélbúnaði.

Far Cry
http://www.farcrygame.com/uk/home.php

Mynd

Leikur frá Crytek Studios. Þessi leikur hækkaði standarinn í tölvuleikja grafík verulega þegar hann kom út 2004. Honum hefur verið haldið vel við með plástrum síðan.
Notast er við HardwareOC Far Cry v1.4.2 http://www.hocbench.com/

Prey

Mynd

Notast er við HardwareOC prey http://www.hocbench.com/prey.php

BioShock

Mynd

Þessi leikur skartar DirectX 10 stuðning, og notast við Unreal 3.0 grafíkvélina. Leikurinn hefur notið mikilla vinsælda frá því hann kom út í ágúst 2007.

Call of Duty 4: Modern Warfare

Mynd

Margir segja þennan leik best heppnaða framhald klassísk skotleiks. Grafíkvélin er DirectX 9 en skartar samt prýðisgrafík. Leikurinn reynir töluvert á vinnslu skjákorta með því að leggja á þau þunga HDR vinnslu, og eðlisfræðilega útreikninga sem auka á raunveruleika tilfinningu leiksins við spilun.

Crysis


Mynd

Er þróaður af Crytek, þeim sömu og gerðu Far Cry. Leikurinn gerir gífurlegar kröfur til vélbúnaðar og skartar nýrri grafíkvél CryEngine2 sem er ein fyrsta grafíkvélin sem gefur fullan stuðning við DirectX 10. Leikinn er einnig hægt að keyra í DirectX 9 bæði með Windows Vista og Windows XP, og krefst það minna afls. Þessi leikur er bomba ársins 2007 og sumir vilja meina að þarna sé að ferðinni besti skotleikur sem sést hefur til þessa. Leikurinn hefur einnig hlotið gagnrýni fyrir að vera allt of kröfuharður á vélbúnað, þ.e.a.s frá öllum öðrum en vélbúnaðarframleiðendum, því menn flykkjast í hrönnum í tölvuverslanir til þess að uppfæra, svo þeir geti spilað leikinn.

Half-Life 2: Episode Two

Mynd

Er nýjasti útspil Valve í þessari seríu, sem vart þarf að kynna. Leikurinn notast við Source grafíkvélina sem hönnuð er af Valve, þá sömu og knýr Counter Strike Source. Þessi leikjavél styður einungis DirectX9. Þótt þessi vél sé þannig séð kominn til ára sinn er gífurlegur fjöldi leikjaspilara að spila leiki sem byggja á þessari grafíkvél.

S.T.A.L.K.E.R.: Shadow of Chernobyl

Mynd

Er leikur frá Úkraínska fyrirtækinu GSC Game World. Leikurinn notast við X-ray grafíkvélina sem er DirectX 9 shader Model 3.0 vél. Þessi vél styður ekki anti-aliasing ásamt HDR (Dynamic lighting) á sama tíma. Þessi vél er því nokkuð sér á báti en engu að síður setur töluvert álag á skjákort.

TimeShift

Mynd

Er fyrstu persónu skotleikur frá Vivendi Games, sem gefin hefur verið út á PC, Xbox 360 og Playstation 3. Leikurinn kom út á PC 30. Október 2007. Leikurinn notast við Unreal 3.0 grafíkvélina.

Tæki og tól notuð

VOLTCRAFT® ENERGY Check 3000
Hægt er að mæla aflnotkun heimilistækja með þessu tæki.

Mynd

Velleman DVM 805 hljóðstyrksmælir
Notaður til þess að mæla hljóðmyndun við álag.

Mynd

Niðurstöður

Orkunotkun

Mynd

Hér var mæld heildarorkunotkun kerfis án skjás, en ekki bara notkun skjákortsins. Test setup samanstendur m.a. af fjórum harðdiskum, 2GB af minni, og þremur 120mm kassaviftum. Segja má að þetta sé svona "dæmigerð" uppsetning hjá harðkjarna tölvuáhugamanni. Mælingin fór þannig fram að tengdur var VOLTCRAFT® ENERGY Check 3000 mælir við vélina allan tímann sem prófanir fóru fram.

Mælirinn skráir hæstu orkuþörf sjálfkrafa. Minnsta orkuþörf (idle) var mæld eftir ræsingu og einungis farið inn í Windows Vista, ekki var slökkt á neinum grafík fídusum Windows Vista eins og Aero. Orkuþörfin var lesin af mælinum við þessa keyrslu.

Það kemur varla á óvart að Jetway Radeon 3870 X2 er orkufrekasta skjákortið hér. Enda um að ræða tvíkjarna skjákort. Ef skoðað er HD 3870 og dregið idle orkunotkun frá load þá fást 111 vött, ef þau eru síðan lögð saman við load orkunotkun HD 3870 fást ca 360 W. En HD 3870 X2 er að mörgu leyti yfirklukkuð tvö slík skjákort.

Þrátt fyrir að HD 3870 X2 sé að taka um 46 vött af orku meira heldur en Nvidia 8800GTX þá er það að nota svipað magni af orku og Nvidia 8800GTX þegar það er ekki að keyra leiki.

Ef þú hefur hugsað þér að keyra tvö Radeon HD 3870 X2 í CrossfireX skaltu gera ráð fyrir því að nota mjög öflugan aflgjafa, en minnsti afgjafinn sem ATI hefur gefið opinberan stuðning er 800 vött. http://ati.amd.com/technology/crossfire ... wn2.html#1

Neðra grafið er birt hér til fróðleiks en ekki er hægt að bera beint saman orkunotkun, því um er að ræða sitthvorn vélbúnaðinn sem notaður var í prófanir og ekki var prófað á nákvæmlega sama hátt. Eldri vélbúnaður tekur þó í heildina minna rafmagn ekki síst fyrir þær sakir að hann var búinn Intel E6600 Core 2 Duo örgjörva (tvíkjarna) en það nýja Q6600 eða fjórkjarnaörgjörva. Þetta er því að vissu leyti sambærilegt ef hafður er þessi varnagli á.

Eldra Test Setup

CPU: Intel Core 2 E6600 2.4Ghz@2,89Ghz (320FSBx9)
Video drivers: NVIDIA ForceWare 91.47, Catalyst 7,5, NVIDIA Force Ware 158,22 (8800GTX, 8800GTS, 8600 og 8500)
Móðurborð: MSI 975X Platinum Power up edition
HD: 2 x WD36GB raid 0
Minni: Corsair XMS DDR2 6400, @800MHz, timings 5 5 5 12
Hljóðkort: Creative Audigy
Skjákort: Jetway Radeon X2900XT, Sparkle 8800GTX, MSI 8600GTS Zero Noise Edition, MSI 8600GT Zero Noise Edition, MSI 8500GT ,MSI 8800GTS O.C. Edition, MSI 7900GTO, MSI 7950GT, EVGA 7800GT@470/1100, MSI X1600XT, MSI 7600GS, Gainward 6600GT.
Stýrikerfi: Win XP SP2

Mynd

Hljóðmyndun

Mynd

Jetway Radeon HD 3870 X2 er ekki hljóðlátt skjákort, þegar viftan fer í hæsta gír þá fer það ekkert á milli mála. Það er þó ekki jafn hávært og HD 2900 XT eða ASUS 8800GTX sem prófuð hafa verið áður. Það er þó rétt að taka það fram að ASUS 8800GTX var mun háværara en önnur Nvidia 8800GTX skjákort sem ég hef prófað, og virtist bios þess skjákorts hafa verið stilltur þannig að viftan myndi keyra hraðar en venjulega heldur en hefur verið gert með þau skjákort.

3DMark06

Mynd

Niðurstöður úr leikjaprófum

Bioshock

Stillingar
Mynd


Mynd
Mynd

Call of Duty 4

Stillingar
Mynd
Mynd

Mynd
Mynd

Crysis

Mynd
Mynd
Mynd

Það kemur á óvart hversu illa HD 3870 X2 kemur út úr Crysis DX 10, ef til vill má kenna ungum reklum um? En þegar þessi próf voru keyrð var þetta skjákort ekki nema viku gamalt. Niðurstaðan úr Crysis DX9 er mjög jákvæð en þetta er fyrsta skjákortið sem ég get keyrt Crysis í 1680x1050 með allt í High, þannig að leikurinn sé spilanlegur. Það finnst mjög vel munurinn að spila leikinn með Nvidia 8800GTS 512MB skjákorti í 1680x1050 upplausn með 31 ramma á sekúndu að meðaltali og svo með ATI HD 3870 X2 með sína 38 ramma á sekúndu að meðaltali.

Mynd
Mynd
Mynd

Half-life 2 Episode Two

Stillingar
Mynd

Mynd
Mynd

Það kemur á óvart að HD 3870 X2 skuli koma verr út en HD 3870 í Half-Life 2 Episode two, en source vélin er ein af fáum grafíkvélum sem er í notkun í dag og var þróuð í samstarfi við ATI. Hér er greinilegt að reklar hafa ekki verið stilltir nægjanlega vel. Þetta er ekkert afhroð ef skoðaður er meðaltals fjöldi ramma. Flestar aðrar grafíkvélar hafa verið þróaðar í samstarfi við Nvidia.

S.T.A.L.K.E.R

stillingar
Mynd
Mynd
Mynd

Mynd
Mynd

Far Cry

Stillingar
Maximum quality option, Direct3D renderer
Level: Volcano, demo: Volcano.tmd
Pixel shader: model 3.0
Antialising: 8×
Anisotropic filtering: 16×
HDR: level 7
Geometry Instancing: enabled
Normal-maps compression: enabled

Far Cry er leikur sem ATi skjákort hafa alltaf staðið sig vel í. Radeon HD 3870 X2 sýnir hér mikla yfirburði.

Mynd

Prey

Stillingar
Demo: guru3d-5.demo
Shader Detail: Highest
Aspect Ratio: [4:3]
Antialiasing: 4×
Anisotropic filtering: 16×
Graphics BOOST: enabled

Mynd

TimeShift

Stillingar
Mynd
Mynd
Mynd

Mynd
Mynd

TimeShift kemur mjög vel út fyrir HD 3870 X2 en það nær næstum helmingi fleiri römmum en HD 3870 með sínum eina kjarna.

Heildarfjöldi ramma

Mynd

Þegar lagður er saman heildar fjöldi ramma úr öllum leikjaprófum fæst grafið hér að ofan. Út frá heildar fjölda ramma var reiknað grafið hér að neðan, sem kallað er %Afl. Það er aðallega gert til þess að sjá hversu vel HD 3870 X2 er að standa sig í samanburði við HD 3870 sem búið er einum kjarna samskonar og kjarnarnir tveir í HD 3870 X2. Af því má lesa að HD 3870 X2 er um 33% öflugra en HD 3870. Þessu grafi skal taka með varúð en engu er stungið undir koddann í prófunum hér. Gróflega má ætla að HD 3870 X2 sé um 30-40% öflugra að meðaltali en HD 3870. Það kemur fyrir að HD 3870 X2 nær að nýta sína tvo kjarna einstaklega vel, eins og niðurstöður í TimeShift leikja prófinu sýna, en þar fæst tæplega helmings munur. En afhverju ekki sé sama upp á teningnum í prófum á Bioshock því þessi leikir notast við sömu grafíkvél, nefnilega Unreal 3.0, er erfitt að svara. Hef enga skýringu á þessu, nema að mögulega getur verið að TimeShift leikurinn er upprunalega hannaður fyrir XBOX 360 og Playstation 3 sé því betur skrifaður til þess að nýta tvo grafíska kjarna.

Mynd

Samantekt

Ruby (ATI) hefur risið upp úr öskunni eins og fuglinn FÖNIX og höggvið feitu undirhökuna af Mad Mod Mike (Nvidia)...... OK gæðingur...., óþarfi að hljóma eins og lýsing á handboltaleik á EM. Reynum að halda okkur við "staðreyndir"

Radeon HD 3870 X2 er öflugasta skjákortið sem hægt er að kaupa í dag, og er hér með krýndur konungur aflsins. Man ekki til þess að konungur aflsins hafi verið verðsettur svo lágt áður, en verð á Nvidia 8800Ultra hefur alltaf verið fáránlegt.

Hversu lengi verður Radeon HD 3870 X2 konungur aflsins? Von er á Nvidia 9800 GX2 með vorinu sem sagt er að verði búið tveimur G92 kjörnum. Það hefur verið sýnt fram á það (ekki í þessu prófi ) að tveir slíkir kjarnar eru öflugri í SLI en ATI HD 3870 X2. Svona er þessi markaður, það er alltaf von á öflugra skjákorti. Nýlega hafa lekið út væntanlegir fídusar ATI R700 kjarnans, sem ef rétt reynist verður svakalegt skjákort með tvöfalt meira reikniafl en R600. Þannig af hverju ekki bíða eftir því? Eða á Nvidia einhverja enn öflugri lausn upp í hillu sem sést bráðlega á markaði. Þín ágiskun er jafn góð og mín.

Það er þó alveg ljóst að ATI er að reyna og því verður að fagna. Radeon HD 3870 X2 er enginn málamiðlun enda kjarnarnir tveir klukkaðir hærra en kjarni HD 3870 áður, eða 825MHz í HD 3870 X2 á móti 775MHz í HD 3870. ATI hefur komið með elegant lausn á vandamálum sem tengjast því að troða tveimur grafískum kjörnum á eitt skjáborð og niðurstaðan er öflugasta skjákort sem hægt er að kaupa í dag. Þarf að ræða það eitthvað?

Það má alveg finna ókosti við ATI Radeon HD 3870 X2; það mætti vera hljóðlátara, það mætti nota minni orku, það mætti vera öflugra! En á meðan ekkert annað skjákort með tveimur grafískum kjörnum er til viðmiðunar eru þetta frekar lágkúrulegar athugasemdir.

Reklar sem hér voru notaðir virkuðu vel, ATI var samt ekki búið að gefa þá opinberlega út, og einungis þeir sem stóðu í því að gera prófanir á skákortinu gátu nálgast þá. Það voru því sömu reklar notaðir hér og allir aðrir notuðu í fyrstu prófunum á þessu skjákorti. Áður en þessi grein kláraðist í vinnslu, kom Catalyst 8.2 út og notkun á honum sýndi örlítil batamerki á fjölda ramma, en ekki það mikil að ástæða væri til að keyra öll próf aftur. HD 3870 X2 virkaði vel í öllum þeim leikjum sem prufaðir voru án vandræða, og reklar fyrir þetta unga skjákort eiga bara eftir að fara batnandi. ATI eins og Nvidia virðast líta á tví-kjarna skjákort sem mikilvægari skjákort á markaði en áður, og því hlýtur að fylgja betri stuðningur rekla en áður.

Hver ætti að kaupa Jetway Radeon HD 3870 X2 skjákort? Það gengur jafnt á móðurborð, hvort sem þau styðja tvískjákorta lausn Nvidia SLI eða tvískjákorta lausn ATI crossfire. Þannig að sá sem vill öflugasta skjákortið sem hægt er að kaupa í dag, fær slíkt kort á betra verðlagi en áður þekkist. HD 3870 X2 er fýsilegur kostur fyrir notendur sem þegar eru búnir móðurborðum sem styðja crossfire, því þá er sá möguleiki fyrir hendi að bæta öðru við í framtíðinni. Sá sem gerir það þarf að vera tilbúinn með mjög öflugan aflgjafa.

Þannig að lokum hip hip húrra húrra húrra.. Eftir að boltinn hafi legið hjá ATI í 16 mánuði þá liggur hann núna hjá Nvidia.

Umræður velkomnar hér
http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?p=168421

Editor RISI
Copyright Yank 2008