BenQ FP222WH skjár review


Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Reputation: 0
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

BenQ FP222WH skjár review

Pósturaf Yank » Sun 18. Nóv 2007 23:16

Fyrir ekki svo löngu skrifaði ég umfjöllun um Samsung SyncMaster 226BW skjá (þessi umfjöllun er að hluta til áframhald á þeirri umfjöllun). Satt að segja hafði ég vonað að það yrði mín fyrsta og síðasta umfjöllun um skjái. Ekki fyrir þær sakir að mér finnist umfjallanir um skjái ekki mikilvægar, heldur fyrir þær sakir að slíkar umfjallanir endurspegla um of skoðanir höfundar og huglægt mat. Enginn "stöðluð" aðferð er til að meta gæði LCD skjáa, og það er erfitt að taka sér slíkt fyrir hendur. Ástæðan er sú að ekki er auðvelt að keyra próf á skjái sem gefa mælanlega niðurstöðu eins og hægt er með flestan annan tölvubúnað. Auðvelt er t.d. með prófunum að mæla fjölda ramma sem skjákort nær að sýna á sekúndu í tilteknum leik. Sú niðurstaða gefur svo beint viðmið til þess að meta afl m.v. önnur skjákort. Vissulega hafa hinar og þessar vefsíður komið sér upp ýmsum "mæliaðferðum" til þess að leggja mat á gæði LCD skjáa, en þegar á botninn er hvolft er endanlega niðurstaða mestmegnis byggð á huglægu mati.


Það er vandasamt verk að velja sér LCD skjá. Menn verða að gera sér grein fyrir því hverjar þeirra þarfir eru, hvað þeir eru tilbúnir að eyða miklum pening, og hvaða áherslur þeir vilja leggja á við val á skjá. Hin fullkomna LCD skjá hef ég ekki enn séð, þeir eru allir einhver málamiðlun. Það hjálpar heldur ekki að gæði skjáa frá mismunandi framleiðendum geta verið mjög misjöfn, og það jafnvel þótt þeir séu samkvæmt uppgefnum kostum mjög líkir.

Skipta má LCD skjáum gróflega í þrjá flokka eftir notkun eða þörfum notanda: tala má um almenna skjái til skrifstofustarfa, sérstakir skjáir til professional myndvinnslu, og skjái fyrir hinn almenna notenda sem spilar leiki, vafrar um netið og horfir af og til á kvikmyndir hvort sem það eru HD-DVD, Blu-ray eða bara DVD. LCD skjáir til professional myndvinnslu eru mjög dýrir, og sumir vilja jafnvel meina að nothæfur slíkur skjár sé ekki fáanlegur og notast enn við CRT túpuskjá.

Í umfjölluninni um Samsung SyncMaster 226BW var ein af hugleiðingunum sem kom upp eftirfarandi: "Einnig mætti verðlag vera lægra en hann má vera ansi mikið betri en aðrir 22" skjáir sem auglýstir hafa verið á innan við 30 þúsund hér á landi" Það verður einmitt eitt aðalefni þessarar umfjöllunar, er hægt að réttlæta kaup á Samsung SyncMaster 226BW þegar hægt er að fá skjá eins og BenQ FP222WH fyrir minna en 30 þúsund??? (18.nóv.07).

Það er http://www.tolvuvirkni.is sem leggur til BenQ FP222WH skjáinn sem hér er prófaður og fá þeir þakkir fyrir.

Aðeins um BenQ

BenQ group er samsett úr 12 fyrirtækjum sem starfa óháð hvort öðru en deila með sér tækni. Framleiðslan er fjölbreytt og spannar m.a. fartölvur, LCD tölvuskjái, LCD sjónvörp, stafrænar myndavélar, farsíma ofl. Fyrirtækið á rætur sínar að rekja allt til ársins 1984, en mest hefur BenQ látið að sér kveða á þessari öld. Meira um sögu og framleiðslu BenQ er hægt að finna á http://www.benq.com

Nánar um BenQ FP222W H Sensey+Photo

Mynd

Mynd fengin af http://www.benq.com

BenQ FP222WH sem hér er prófaður er nákvæmlega sami skjár og BenQPF222W nema sá síðarnefndi er allur svartur. Á heimasíðu BenQ er ekki tekið fram hvaða panel má finna í þessum skjá, en það má ljóst vera að það er panel af ætt TN panels. 5ms viðbragðstími, 160-170 gráðu áhorfshorn og 16,7 milljón litir, segja allt sem segja þarf. BenQ hefur hin síðari ár sífellt meira látið að sér kveða sem framleiðandi hágæða LCD skjáa, þeir framleiða sinn eigin panel og hafa hlotið lof og verðlaun fyrir framleiðslu sína.

Það kom mér á óvart að skjárinn væri merktur sérstaklega photo eitthvað. Flestir sem koma nálægt ljósmyndun eða professional grafíkvinnslu eru sammála um að í slíkt séu TN panelar ekki kjörnir. BenQ er ekki að vísa til þess að skjárinn sé sérhannaður í myndvinnslu heldur er þetta nafn á tæknin sem þeir notast við og kjósa að kalla Senseye+Photo. Þessi tækni tryggir að sögn BenQ, skýrari mynd, og betri liti með því að stilla skjáinn sjálfkrafa í mjög einfölduðu máli. Þessi skjár er aðallega ætlaður til nota fyrir hinn almenna tölvunotanda sem vafrar um á netinu vinnur í word, excel og spilar tölvuleiki en 5ms viðbragðstími ætti að tryggja að ghosting verði ekki vandamál.

Helstu eiginleikar BenQ FP222WH

Mynd
Tekið af http://www.benq.com

Samantekið: 5ms svörunartími, 700:1 í skerpu, 2500-(3000):1 Dynamic skerpu, 22“ breiðtjaldskjár í 16:10 hlutfalli, 1680x1050 upplausn, birta 300cd/m2, DVI-D, HDMI, D-Sub tengimöguleiki, píxlaþéttleiki 0,282

Hversu stór er 22" skjáflötur

Mynd

Myndin sýnir muninn á stærð skjáflatar á klassískum 19" LCD skjá í 1280x1024 píxlum vs. 22" skjáflöt í 1680x1050. 22" flöturinn rúmar nánast tvö A4 blöð í raunstærð hlið við hlið. Það er töluvert um að menn velti því fyrir sér hvort það sé þörf á slíkum skjáfleti og hvort widescreen skjáir hafi eitthvað fram yfir venjulega 4:3 formatið. Mín reynsla er að það að fara úr 19" í 22" og svo til baka aftur í 19" LCD skjá, getur valdið innilokunarkennd sem líkleg er að halda kostnaði vegna sálfræðiaðstoðar háum.

Kassi og fylgihlutir

Kassinn lætur ekki mikið yfirsér en þjónar sínu hlutverki vel, öllu er haganlega komið fyrir og auðvelt að taka hluti uppúr honum. Skv. merkingum er þessi tiltekni skjár kominn frá Hollandi en framleiddur í Kína í júlí 2007.

Mynd
Mynd

Fylgihlutir eru: DVI snúra, VGA (15 pin D-sub) snúra, rafmagnssnúra, CD með manual og reklum, og quick quide.


Uppsetning ,stillingar, og tengimöguleikar

BenQ FP222WH er einfaldur í uppsetningu, engin tæki eða tól þarf til þess. Fætinum er einfaldlega smellt á og skjárinn tengdur. Að aftan er einnig auga sem leiða má leiðslur í gegn en það hjálpar við að ná snyrtilegum frágangi leiðslna. Hægt er að halla skjánum töluvert mikið aftur á bak en minna fram á við. Ekki er hægt að hækka eða lækka skjáinn á fætinum né snúa skjánum í langsum stöðu.

Mynd
Mynd

Skjárinn er búinn VESA festingu og er henni snyrtilega komið fyrir að aftan á, bakvið BenQ lógóið. Hún er því falin nema hana þurfi að nota. Til þess að hún sé aðgengileg þarf að fjarlægja fótinn en það er gert með því að fjarlægja tvær skrúfur, til þess þarf skrúfjárn.

Mynd

Engin USB tengi eða hátalarar eru á BenQ FP222WH. Sumum finnst það ókostur, en fyrir mér er það ekki vandamál. Hátalarar staðsettir á LCD skjá eru yfirleitt af mjög lökum gæðum, og hljómurinn því lélegur eftir því. USB tengjaleysi má leysa með USB hub.

BenQ FP222WH er búinn HDMI tengi, DVI, og VGA (D-sub) tengi. Slíkt eykur mjög á notagildi skjásins en hægt er að tengja beint við hann leikjatölvur eins og XBOX 360, eða Playstation 3 með HDMI tengi, og njóta þeirra HD gæða sem þær vélar bjóða uppá. Sama má segja um öll önnur tæki sem hafa HDMI tengimöguleika, t.d. HD-DVD, og Blu-Ray spilara. Hægt er að skipta á milli tækja sem tengd eru í hvort tengið sem er með einni snertingu.

Mynd

Takkar til stillinga á skjánum mættu vera betur staðsettir og upphaflega þurfti ég alltaf að snúa skjánum örlítið til þess að muna á hvaða takka ætti að ýta til þess að fá menu upp, en on off takkinn er efstur og lærist fljótt á hann. Staðsetning annarra takka lærist þó með tímanum og eftir 2 vikna notkun rata ég orðið blint á þá.

Mynd

Skjárinn kemur með 5 forstilltum verksmiðjustillingum, sem hægt er að velja með því að þrýsta á takka; sRGB, Standard, Photo, Movie, og Dynamics. Fyrstu tvær stillingarnar eru ekki í uppáhaldi en Standard virkaði þó sem byrjunarpunktur á stillingu sem ég notaða til endanlegar fínstillingar á skerpu, birtu og litum. Breyta þurfti litum, skerpu, og birtu töluvert þannig að ég yrði sáttur. Photo stillingin nýtist við skoðun ljósmynda og Photoshop vinnslu, Movie og Dynamics koma ágætlega út við áhorf á kvikmyndum, nýtist þá Dynamics helst ef setið er lengra frá skjánum en venjulega.

Þegar ég kveikti á skjánum í fyrsta skipti þá fannst mér litirnir í allt of grænum tón. Ekki bættu forstilltu verksmiðjustillingarnar það upp. Skjárinn var allt of græn og bjartur, en eftir fínstillingar í menu (eftir mínu auga) varð þetta allt annað og gæði skjásins komu í ljós. Synd samt að verksmiðjustillingar séu ekki betri, en sitt sýnist hverjum og ekki eru allir skjáir eins.

Skerpu og birtustig er hægt að stilla með einni snertingu, en ekki þarf að fara sérstaklega inn í menu með mörgum aðgerðum til þess að stilla það eins og á sumum skjáum.

Test Setup

CPU: Intel Core 2 Q6600
Móðurborð: Gigabyte X38-DQ6 lagt til af http://www.tolvutek.is
HD: 2 x WD36GB raid 0
Minni: Corsair XMS DDR2 6400, @800MHz, timings 5 5 5 12
Skjákort Inno3D 8800GTS 640MB OC
Stýrikerfi: Windows Vista Ultimate
Skjár: BenQ FP222WH frá http://www.tolvuvirkni.is , Samsung SyncMaster 226BW, Acer Gamers 19" ,Sony Multiscan G420 CRT

Prófanir

Í inngangi þessarar umfjöllunar var komið inn á það hversu erfitt væri að komast hjá því að nota huglægt mat þegar metin eru gæði LCD skjáa. Óneytanlega byggist þetta mat því töluvert af þeirri persónulegu reynslu sem ég hef haft af Acer Gamers Editon 19“ skjá og nú síðast Samsung Syncmaster 226BW 22“ skjá sem ég hef notað síðustu 2 mánuði eða svo. Að auki byggir þetta mat á áralangri reynslu og vitneskju sem safnast hefur saman vegna áhuga á tækni og tólum sem tengjast tölvum, þannig að jaðrar við hugsýki.

Inputlag

Er sá tími sem líður frá því að skjánum bárust boð um að birta mynd þangað til skjárinn birtir hana. Það hefur verið viðloðandi suma TN panel skjái í fortíðinni að hafa þau vandkvæði að of langur tími líði frá því að boð berist til skjásins, þangað til mynd birtist. Þetta vandamál getur verið einstaklega hvimleitt við leikjaspilun , og þá helst hraða FPS leiki.

Ekkert mælanlegt input lag fannst við mælingar, né varð vart við það við keyrslu á 3Dmark03, þótt fylgst væri náið með báðum skjáum. Tengdur var Sony CRT skjár við skjákortið ásamt BenQ FP222WH og stillt á klónun. Þ.e. sama mynd var á BenQ FP222WH og Sony skjánum á hverjum tíma.

Keyrð var skeiðklukka sem sýndi tímann allt niður í einn þúsundasta úr sek og teknar 20 myndir af skjánum. Enginn mynd sýndi mismunandi tíma milli skjánna. Gert er ráð fyrir að Sony analog skjárinn hafi ekkert inputlag.

Black light bleed er leiðindar fyrirbæri, sem hefur verið viðloðandi skjái með lágan viðbragðtíma. Það lýsir sér sem hvítt ljós sem sést best í myrkvuðu herbergi þegar skjáir birtir svarta skjámynd. Þetta ljós sést oft sem glampi við jaðra skjásins, svona eins og ljós sé að leka út við endanna. Þetta getur verið mjög hvimleitt þegar horft er á bíómyndir sem eru með atriðum sem gerast í myrkvuðu umhverfi. Dæmi um svona mynd væri t.d. DOOM og ekki síst DOOM3 leikurinn. Myndin sýnir þó ekki sé hún góð að þetta fyrirbæri er til staðar hjá BenQ FP222WH, en að mjög takmörkuðu leyti. Örlítið ber á því við jaðarinn rétt til hægri við miðju að neðan. Þetta var það lítið að ekki verður mikið vart við þetta í leikjaspilun eða við áhorf kvikmynda.

Mynd

Grænaljósið sem sést á myndinni er LED power ljósið, en það bláa er ljós frá hátalara sem er staðsettur fyrir aftan skjáinn, hefur því ekkert með þennan skjá að gera.

DPB (Dead Pixel buddy) version 1.1

Er handhægt lítið forrit sem hjálpar við kerfisbundna leit af dauðum píxlum. Skemmst er frá því að segja að engir dauðir píxlar fundust á BenQ FP222WH skjánum.

Mynd

MonitorTest v3.0

Er forrit frá PassMark. Það er hentugt til þess að meta gæði skjáa, en gengið er í gegnum kerfisbundin skref til þess að skoða hluti eins og liti, skerpu, hvernig mismunandi leturgerðir koma út á skjánum, ofl.

Mynd

Mynd

Mynd

Mynd

Hvernig stendur BenQ FP222WH sig í leikjum?

Nú hef ég notað skjáinn í um 2 vikur og spilað á honum bæði nýja og gamla leiki. Nýja leiki eins og Crysis, Call of Duty 4, TimeShift, en þetta eru leikir styðja 1680x1050 frumupplausn (native resolutin) skjásins. Skjárinn hefur vægast sagt staðið sig með prýði og gefur Samsung Syncmaster 226BW ekkert eftir, lágur viðbragðstími og góðir litir hafa gert leikjaspilun að mjög ánægjanlegri reynslu. Það sem sker BenQ FP222WH frá öðrum skjám sem ég hef notað er að hann er ótrúlega góður þegar kemur að því að spila leiki í annarri upplausn, en frumupplausn, þeirri sem honum ætlað að sýna bestu gæði (1680x1050). Tók sérstaklega eftir þessu í BF1942 sem er leikur eins og margir aðrir EA leikir sem styður ekki 1680x1050 upplausn. Sá gamli leikur kom betur út í 1280x960 heldur en ég hef séð hann í nokkrum öðrum LCD skjá.

Samantekt

BenQ FP222WH kom mér mjög á óvart. Hann er mun betri LCD skjár heldur en ég átti von á að hægt væri að fá fyrir þetta verð. Til almennar notkunar og sér í lagi leikjaspilunar er hann frábær. Það á við um hvort sem er verið að spila nýja eða gamla leiki, sem ekki endilega styðja frumupplausn þessa skjás (1680x1050).


Þeir tengimöguleikar sem BenQ FP222WH bíður uppá: DVI, HDMI, og D-Sub auka á notagildi skjásins. Hægt er að tengja fleiri en eitt tæki við hann hverju sinni og skipta á milli með einni snertingu. Þessi tæki geta t.d verið: HD-DVD, eða Blu-Ray spilarar, XBOX 360, Playstation 3 eða jafnvel bara önnur tölva, já eða allt í allt þrjár tölvur.

Black light bleed er til staðar hjá BenQ FP222WH. Það var þó mjög staðbundið, og eins og myndin sýnir í litlu magni. Það litlu magni að ekki verður vart við það nema við mjög sérstakar aðstæður, t.d. þegar horft er á mynd sem ekki fyllir skjáinn til fulls og skilur svarta rönd neðst og myrkur er í herberginu.

BenQ FP222WH er ekki skarpasti skjár sem þú getur fengið. 700:1 í skerpu er hans aðal veikleiki. Sá veikleiki virðist þó aðallega vera á pappírnum því þegar ég skipti honum út og nota Samsung SyncMaster 226BW (1000:1) skjáinn í staðinn verð ég ekki var við neinn stórkostlegan mun. BenQ FP222WH gefur Samsung SyncMaster 226BW ekkert eftir þegar kemur að litum og skýrri mynd. Það þurfti þó að hafa meira fyrir því að stilla BenQ FP222WH til þess að ná honum góðum, því verksmiðjustillingarnar voru ekki að virka vel á mig. Verksmiðjustillingarnar eins og Photo og Movie, eru þó brúklega í þá notkun sem þær eru ætlaðar.

Myndi ég taka BenQ FP222WH fram yfir Samsung SyncMaster 226BW? Já því ekki? ef ég ætlaði að spara 10 þúsund í skjákaup og eyða frekar í 10 þúsund króna dýrara skjákort eða örgjörva, væri það auðvelt val. BenQ FP222WH mun standa fyrir sínu.

Ef þú ert að leita þér af skjá ertu að gera mistök ef þú kemur ekki við í Tölvuvirkni og skoðar úrvalið þar af BenQ skjáum.

Umræða hér http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?t=16040

Editor RISI
Copyright Yank 2007