"Besta" linux distro fyrir einhvern sem er að dýfa tánum?

Skjámynd

kusi
Ofur-Nörd
Póstar: 212
Skráði sig: Mið 29. Apr 2009 23:17
Reputation: 27
Staða: Ótengdur

Re: "Besta" linux distro fyrir einhvern sem er að dýfa tánum?

Pósturaf kusi » Þri 30. Des 2025 19:03

Langar að byrja á að bjóða þig velkominn í hóp Linux notenda, vonandi verður reynslan þín góð :)

Ég hef verið að fikta í Linux kerfum í rúm 25 ár núna og ég get sagt þér að það er mikill munur á því að nota Linux núna og fyrir aldarfjórðungi síðan. Það var þá vissulega mikil þolraun að koma upp Linux kerfi en er í dag orðið afar sársaukalaust og í raun mun auðveldara en að setja upp Windows, þ.e. svo lengi sem þú velur "hefðbundið" distro. Það að setja upp Linux er, fyrir almennan notanda, spurning um að stinga einfaldlega USB kubbi í samband og ræsa tölvuna. Þá ertu með tilbúið kerfi með öllum helsta hugbúnaði sem þú þarft og líklegast með innbyggðum stuðningi við allan vélbúnað sem þú notar. Til samanburðar tók það mig nokkra klukkutíma að gangsetja Windows tölvu fyrir skemmstu - þó svo hún hafi verið með Windows fyrirfram uppsettu frá framleiðanda!

Það sem ég vildi koma að er að upplifun þín af því að setja upp Linux verður eflaust fín, nokkurn vegin sama hvaða distro þú velur og þú þarft ekki að óttast að velja vitlaust eða svitna yfir tilhugsuninni um að fá Linux til að virka fyrir þig. Ef þér svo líst ekki á valið kostar ekkert að prófa næsta distro!

Að spurningunni þinni. Það er erfitt að segja hvað er "best" því að forsendur notandans ráða miklu um vægi einstakra eiginleika, sem og afhverju þú vilt yfir höfuð nota Linux.

- Viltu einfaldleika og gott aðgengi að hugbúnaði, vélbúnaðarstuðningi og leiðbeiningum? Ubuntu er mjög útbreitt og þægilegt og það er auðvelt að finna leiðbeiningar og tilbúna pakka fyrir hvað sem þú vilt.
- Viltu viðhalda kunnugleika við Windows? Linux Mint er Ubuntu undir húddinu en hefur útlit sem er kunnuglegra fyrir Windows notendur.
- Viltu áskorun og nota tækifærið til að læra mikið á Linux? Arch, setur allt upp handvirkt og lærir með því á kerfið frá grunni.

Ég var nýgræðingi í Linux innan handar um daginn við að setja upp Arch. Hann gerði það mest sjálfur með hjálp YouTube og ChatGPT og hafði mjög gaman af. Það tók hann samt nokkra daga og langar nætur við að leita uppi lausnir á hinu og þessu. Þetta er þó sannarlega ekki fyrir alla!

Að þessu sögðu þá nota ég Fedora. Það hefur um margt svipaðan sess og Ubuntu en er fínpússaðra að mínu mati.